21.12.2009 | 00:42
Verið góð við dýrin.
Maðurinn biður bæna til síns herra.En ætli blessuð dýrin biðji bæna til síns herra ?
Ég sá þessa grein í gömlu blaði, en bætti inn myndum.
Almanak Þjóðvinafélagsins 1911 - Tryggvi Gunnarsson
Mynd eftir Raymond Rafn Cartwright
BÆN HESTANNA Gefðu mér fóður svo ég sé ekki svangur, og vatn þegar ég er þyrstur. Mundu eftir því, að nú eru víða á þjóðvegum komnar brýr yfir ár og læki, svo að nú get ég ekki fengið að drekka á ferðalagi eins oft og áður. Ljáðu mér hús og sæmilega hirðingu, svo að ég þurfi ekki að standa úti í vetrarfrostum og jarðleysum. Berðu mig ekki. Þegar ég er að bera þig eða þína muni þá skil ég ekki, hvers vegna þú ert að berja mig. Mér finnst ég vilja þóknast þér í öllu, sem ég get. Sjáðu um það, að ekki sé kippt illmannlega í taumana eða látin upp í mig frosin beislismélin á vetrardag, þegar ég er beislaður.- Láttu mig ekki ganga berfættan á grýttum vegi eða svellalögum á vetrardegi. Legg þú ekki þyngri byrðar á mig en ég get borið. Hnýttu hvorki hestum né nautum í tagl mitt, slíkt hefur oft kvalið mig og þreytt. Þrýstu mér ekki til að hlaupa hraðara en ég get, og umfram allt, lánaðu mig ekki ungum reiðgöpum eða fyllirútum. Lofaðu mér að hvíla mig þegar ég er mjög þreyttur, eða er bólginn eða með sár undan reiðverum. Allt, sem ég get unnið skal ég vinna fyrir þig með glöðu geði, einkum ef þú sýnir dálitla viðkvæmni og blíðu. Og þó þú berjir mig og sýnir mér illhryssingshátt, þá skal ég samt vinna fyrir þig með góðu, ef þú ekki á endanum selur mig, þegar ég er orðinn gamall og heilsulítill til ókunnra manna í ókunna átthaga. Styttu miklu heldur líf mitt þannig, að ég sem minnst viti af því, þegar þér virðist að ég geti ekki unnið fyrir uppeldi mínu. Þú veist, að ég get ekki talað svo þú skiljir mig, en láttu mig ekki gjalda þess.
BÆN HUNDANNA Lofaðu mér að fylgja þér, hvert sem þú fer, þó þú stundum skammir mig og berjir, þá hefi ég nú fengið svo mikla tryggð til þín, að ég hefi enga ró þegar ég sé þig ekki, þú ert sá eini í heiminum, sem mér þykir vænt um. Lokaðu mig því ekki inni þegar þú fer eitthvað, og skildu mig ekki eftir á ferðalagi. Gerðu mér aðvart þegar þú fer af stað. Það er óbærilegt, þegar ég leita að þér á ókunnum stað og finn ekki. Reiddu mig yfir ár og eggjagrjót, svo að ég geti fylgt þér á langri leið. Ég vil vinna til að vera svangur og magur, ef ég fæ aðeins að vera hjá þér og njóta blíðu og nákvæmni þinnar. Skammir og högg særa mig einkum þegar mér finnst ég vera saklaus, eða skil ekki fyrir hvað ég á að líða þetta. Ég skal reyna að vinna ekki til þess. Þó ég geti ekki talað, þá getur þú séð í augum mínum hugsanir mínar.
Verum góð við dýrin.
Athugasemdir
Sæll og blessaður
Skemmtilegur pistill.
Nýlega féll dómur hér á Austurlandi yfir bónda sem hafði vanrækt dýrin sín. Fullt af hræjum fundust bæði í útihúsum og utandyra. Minnir að hann hafi þurft að greiða 80.000. kr. í sekt. Þessi dómur var til skammar og segir okkur ýmislegt um dómskerfi Íslendinga.
Guð veri með þér
Kær kveðja/Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 21.12.2009 kl. 14:02
Sammála Rósu. Mér finnst það hryllilegasta ofbeldi þegar fólk fer illa með dýrin. Að koma illa fram við dýr og börn lýsir bara innri manni. Ég sá fyrir tveimur árum myndband sem tekið var upp í Kína þar sem dýr voru flegin lifandi og ég sé ennþá fyrir mér aumingja dýrin. Sé alltaf eftir að hafa horft á þetta myndband því svo sannarlega hefur mér liðið illa yfir því. Og ég vona að þessum mönnum verði refsað eftir dauðann og ef Helvíti er til að þeir lendi þá vonandi þar.
Gleðileg jól til ykkar allra hér inni
Kveðja, Adda
Adda Guðrún Sigurjónsdóttir, 23.12.2009 kl. 21:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.