21.3.2009 | 15:36
Gamli Nói.
Förum að ráði Nóa og smíðum örk.
Í dag eru erfiðir tímar í heiminum, við vitum að velmegunin sem hefur ríkt undanfarin ár var sýnd veiði en ekki gefin. Græðgin , öfundin og siðleysið í sinni verstu mynd heltók fólkið og þannig villtust margir af hinum þrönga vegi kærleikans og trúarinnar á hið góða yfir á breiðstræti Mammons og spillingar. Núna lifa margi í óvissu og sjá ekki nokkra leið út af því flæðiskeri sem við erum stödd á.
Ég á ekki von á flóði eins og var á tímum Nóa gamla, en það er annarskonar flóð sem ég á við og það er þegar byrjað að flæða. Ólgan í fjölmenningunni kraumar og það er að byrja að flæða, það er ráðist á Kristinn gildi og virðist sem ekkert sé heilagt lengur, grimmdin og græðgin virðast ætla að ná tökum á tíðarandanum, þannig að smá saman skolast burt jarðvegurinn að undirstöðum kærleikans.
Nói Gamli bjargaði sér og sínum og ekki aðeins það heldur öllum heiminum líka, því öll dýrin sem hann tók með sér tákna í rauninni allan heiminn.
Eigum við ekki að smíða okkur örk ?
Ég er ekki að tala um örk eins og Nói gamli smíðaði og þó, okkar örk sést kannski ekki með berum augum, en við komum til með að vita af henni og finna fyrir henni.
Trúin verður kjölur arkarinnar. Við styrkjum kjölinn með því að iðka bænina meira en við höfum gert, lesa iðulega í Biblíunni og næra anda okkar, og einnig tryggja sér næringu fyrir andanum í samfélagi trúaðra með því að stunda kirkjusókn.
Böndin sem koma upp frá kilinum og við ætlum að klæða súðina á eru fjölskyldu og vinabönd og auðvitað kærleiksbönd. Til að þessi bönd verði sem best úr garði gerð þurfum við að rækta vel samskiptin við okkar nánustu og nota fyrirgefninguna mikið.
Súðin er síðan klædd með umhyggju og skyldurækni.Til að súðin standi fyrir sýnu verðum við að gefa hvort öðru tíma eð örum orðum verum góð við hvort annað. Sinnum störfum okkar af alúð, verum raunsæ á það hverju við getum lofað svo við svíkjum engan.
Þilfarið er fólgið í allskonar varúðarráðtöfunum. Til að mynda förum varlega í allar fjárfestingar svo við verðum ekki fyrir áföllum.
Vindum síðan upp segl vonarinnar. Og setjum stefnuna rétt. Ef hún er rétt þá á okkur að miða í átt að himnaríki
Svona verður Örkin okkar sem við ætlum að nota til siglingar um lífsins haf:
Trúin er kjölfestan.
Við fljótum á kærleikanum.
Og vonin setur okkur mið á himin Guðs.
Athugasemdir
Amen
Sigríður Ágústa Þórólfsdóttir, 21.3.2009 kl. 23:44
Sæll Jenni minn
Frábær grein hjá þér. Mikið er gott að fá svona greinar frá þér í bland við pólitíkina en það er nauðsynlegt að veita ráðafólkinu aðhald.
Guð veri með þér og þínum.
Kær kveðja/Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 22.3.2009 kl. 15:40
Takk fyrir Rósa mín , maður reynir að komast frá pólitíkinni öðru hvoru.
Guð veri með þér og þínum.
Kv / Jenni
Jens Sigurjónsson, 22.3.2009 kl. 17:44
Ég held, Jenni minn að lausnin felist ekki í því að lesa í Biblíunni. Hún er bara eitt trúarrit af mörgum í heiminum. Allavega nenni ég alls ekki að lesa í Biblíunni því ekki finn ég nú alveg allt sem ég leita að þar. Sýnum kærleik, vináttu og góðsemi en það er ekki tengt við kristni. Öll trúarbrögð í heiminum nota þessi gildi líka. Þannig að blöndum ekki trúnni inn í þetta, í guðs bænum, öll stríð í heiminum verða af völdum trúar í einhverri mynd. Notum heldur umburðarlyndi og mannkærleik, hann er til dæmis ekki að finna í Gamla textamentinu
Kveðja, Adda systir
Adda (IP-tala skráð) 22.3.2009 kl. 18:02
Hæ Adda mín.
Það er akkúrat það sem ég er að reyna að segja . Sýnum umburðarlyndi og kærleika þá verður lífið miklu betra.
Kveðja Jenni.
Jens Sigurjónsson, 22.3.2009 kl. 18:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.