Færsluflokkur: Trúmál
21.12.2009 | 00:42
Verið góð við dýrin.
Maðurinn biður bæna til síns herra.En ætli blessuð dýrin biðji bæna til síns herra ?
Ég sá þessa grein í gömlu blaði, en bætti inn myndum.
Almanak Þjóðvinafélagsins 1911 - Tryggvi Gunnarsson
Mynd eftir Raymond Rafn Cartwright
BÆN HESTANNA Gefðu mér fóður svo ég sé ekki svangur, og vatn þegar ég er þyrstur. Mundu eftir því, að nú eru víða á þjóðvegum komnar brýr yfir ár og læki, svo að nú get ég ekki fengið að drekka á ferðalagi eins oft og áður. Ljáðu mér hús og sæmilega hirðingu, svo að ég þurfi ekki að standa úti í vetrarfrostum og jarðleysum. Berðu mig ekki. Þegar ég er að bera þig eða þína muni þá skil ég ekki, hvers vegna þú ert að berja mig. Mér finnst ég vilja þóknast þér í öllu, sem ég get. Sjáðu um það, að ekki sé kippt illmannlega í taumana eða látin upp í mig frosin beislismélin á vetrardag, þegar ég er beislaður.- Láttu mig ekki ganga berfættan á grýttum vegi eða svellalögum á vetrardegi. Legg þú ekki þyngri byrðar á mig en ég get borið. Hnýttu hvorki hestum né nautum í tagl mitt, slíkt hefur oft kvalið mig og þreytt. Þrýstu mér ekki til að hlaupa hraðara en ég get, og umfram allt, lánaðu mig ekki ungum reiðgöpum eða fyllirútum. Lofaðu mér að hvíla mig þegar ég er mjög þreyttur, eða er bólginn eða með sár undan reiðverum. Allt, sem ég get unnið skal ég vinna fyrir þig með glöðu geði, einkum ef þú sýnir dálitla viðkvæmni og blíðu. Og þó þú berjir mig og sýnir mér illhryssingshátt, þá skal ég samt vinna fyrir þig með góðu, ef þú ekki á endanum selur mig, þegar ég er orðinn gamall og heilsulítill til ókunnra manna í ókunna átthaga. Styttu miklu heldur líf mitt þannig, að ég sem minnst viti af því, þegar þér virðist að ég geti ekki unnið fyrir uppeldi mínu. Þú veist, að ég get ekki talað svo þú skiljir mig, en láttu mig ekki gjalda þess.
BÆN HUNDANNA Lofaðu mér að fylgja þér, hvert sem þú fer, þó þú stundum skammir mig og berjir, þá hefi ég nú fengið svo mikla tryggð til þín, að ég hefi enga ró þegar ég sé þig ekki, þú ert sá eini í heiminum, sem mér þykir vænt um. Lokaðu mig því ekki inni þegar þú fer eitthvað, og skildu mig ekki eftir á ferðalagi. Gerðu mér aðvart þegar þú fer af stað. Það er óbærilegt, þegar ég leita að þér á ókunnum stað og finn ekki. Reiddu mig yfir ár og eggjagrjót, svo að ég geti fylgt þér á langri leið. Ég vil vinna til að vera svangur og magur, ef ég fæ aðeins að vera hjá þér og njóta blíðu og nákvæmni þinnar. Skammir og högg særa mig einkum þegar mér finnst ég vera saklaus, eða skil ekki fyrir hvað ég á að líða þetta. Ég skal reyna að vinna ekki til þess. Þó ég geti ekki talað, þá getur þú séð í augum mínum hugsanir mínar.
Verum góð við dýrin.
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.12.2009 | 06:54
Spilin minna á trúnna.
Úr dagbók prestsins í Danmörku
Í gamla daga átti fólk það til að segja í gamni; "Nú skulum við fletta svolítið í sálmabókinni." Þetta þótti nokkuð skemmtilegur leikur. Þá höfðu spilin margs konar merkingu, ekki síður trúarlega en veraldlega. Trúræknir menn töldu þó allt til vorra tíma spilamennsku vera af hinu illa, og beinlínis syndsamlegt að stytta sér stundir með spilaleikjum. Í dagbók sína skrifar presturinn eitthvað á þessa leið. Nýlega rakst ég á gamla sögu hjá vini mínum, sem mig langar til þess að segja frá.: "Hermaður var í kirkju. Meðan á guðsþjónustunni stóð, tók hann upp spil og skoðaði þau nákvæmlega. Svo óheppilega vildi til, að einn af yfirmönnum hans var í kirkjunni og sá til hans. Kærði hann hermanninn fyrir herforingjanum, en hann var enginn annar en sá sem síðar varð Friðrik konungur sjöundi. Hermaðurinn var tekinn til yfirheyrslu þegar í stað. Hann sagði prinsinum að hann hefði aldrei lært að lesa, en móðir sín hefði kennt sér, hvað spilin táknuðu. Prinsinn vildi fá nánari skýringu á því, og fékk hana skilmerkilega hjá hermanninum.
Þegar ég sé Ás minnir það mig á, að það er bara einn Guð og hann hefur skapað himin og jörð. Tvistur segir mér, að Jesús sé bæði guðlegur og mannlegur. Þristur segir mér, að það séu þrjár persónur í trúnni, Faðir, sonur og heilagur andi. Fjarkinn minnir mig á guðspjöllin, Mattheusar-, Markúsar-, Lúkasar-, og Jóhannesarguðspjöll. Fimman táknar fimm kraftaverk Jesú. Sexan segir mér, að það séu sex vinnudagar í vikunni. Sjöan að halda hvíldardaginn heilagan. Áttan, að það voru aðeins átta sem komust af í syndaflóðinu. Nían og Tían segir frá því, þegar Jesús læknaði tíu líkþráa og níu voru vanþakklátir. Laufagosann setti setti hermaðurinn til hliðar og sagði að hann væri einskis nýtur. Kóngarnir táknuðu vitringana þrjá frá Austurlöndum, sem tilbáðu Jesúbarnið. Drottningarnar táknuðu Maríu mey og konurnar þrjár sem fóru til grafarinnar. Gosarnir þrír voru böðlarnir sem krossfestu Jesú. Það eru 12 mannspil spilunum og jafnmargir mánuðir í einu ári. Spilin eru 52 og jafnmargar vikur eru í árinu. Það eru 365 punktar í spilunum eins og dagarnir í einu ári. Lauf þýðir kross Krists. Spaði gröf hans. Tígull höfuðáttirnar fjórar. Hjarta segir að maður eigi að sækja kirkju af trú og gleði. Gott sagði prinsinn, en hvað með laufagosann? Hann táknar Júdas sem sveik Jesú - eða yfirmanninn sem kærði mig. Hermanninum var ekki refsað, heldur var honum launað fyrir útskýringarnar á spilunum, sem hinn hái herra hafði aldrei heyrt fyrr."
Trúmál | Breytt s.d. kl. 07:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
21.3.2009 | 15:36
Gamli Nói.
Förum að ráði Nóa og smíðum örk.
Í dag eru erfiðir tímar í heiminum, við vitum að velmegunin sem hefur ríkt undanfarin ár var sýnd veiði en ekki gefin. Græðgin , öfundin og siðleysið í sinni verstu mynd heltók fólkið og þannig villtust margir af hinum þrönga vegi kærleikans og trúarinnar á hið góða yfir á breiðstræti Mammons og spillingar. Núna lifa margi í óvissu og sjá ekki nokkra leið út af því flæðiskeri sem við erum stödd á.
Ég á ekki von á flóði eins og var á tímum Nóa gamla, en það er annarskonar flóð sem ég á við og það er þegar byrjað að flæða. Ólgan í fjölmenningunni kraumar og það er að byrja að flæða, það er ráðist á Kristinn gildi og virðist sem ekkert sé heilagt lengur, grimmdin og græðgin virðast ætla að ná tökum á tíðarandanum, þannig að smá saman skolast burt jarðvegurinn að undirstöðum kærleikans.
Nói Gamli bjargaði sér og sínum og ekki aðeins það heldur öllum heiminum líka, því öll dýrin sem hann tók með sér tákna í rauninni allan heiminn.
Eigum við ekki að smíða okkur örk ?
Ég er ekki að tala um örk eins og Nói gamli smíðaði og þó, okkar örk sést kannski ekki með berum augum, en við komum til með að vita af henni og finna fyrir henni.
Trúin verður kjölur arkarinnar. Við styrkjum kjölinn með því að iðka bænina meira en við höfum gert, lesa iðulega í Biblíunni og næra anda okkar, og einnig tryggja sér næringu fyrir andanum í samfélagi trúaðra með því að stunda kirkjusókn.
Böndin sem koma upp frá kilinum og við ætlum að klæða súðina á eru fjölskyldu og vinabönd og auðvitað kærleiksbönd. Til að þessi bönd verði sem best úr garði gerð þurfum við að rækta vel samskiptin við okkar nánustu og nota fyrirgefninguna mikið.
Súðin er síðan klædd með umhyggju og skyldurækni.Til að súðin standi fyrir sýnu verðum við að gefa hvort öðru tíma eð örum orðum verum góð við hvort annað. Sinnum störfum okkar af alúð, verum raunsæ á það hverju við getum lofað svo við svíkjum engan.
Þilfarið er fólgið í allskonar varúðarráðtöfunum. Til að mynda förum varlega í allar fjárfestingar svo við verðum ekki fyrir áföllum.
Vindum síðan upp segl vonarinnar. Og setjum stefnuna rétt. Ef hún er rétt þá á okkur að miða í átt að himnaríki
Svona verður Örkin okkar sem við ætlum að nota til siglingar um lífsins haf:
Trúin er kjölfestan.
Við fljótum á kærleikanum.
Og vonin setur okkur mið á himin Guðs.
Trúmál | Breytt s.d. kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.3.2009 | 21:31
Talan sjö.
Hvað er svona merkilegt við töluna sjö ?
Sumir segja töluna heilaga, enda kemur hún víða við í trúarlegu samhengi.
Talan sjö er oft kölluð heilög tala. Í hinni fornu grísku heimsmynd sáu menn sjö himna, því eru menn stundum sagðir "í sjöunda himni" þegar allt gengur vel. Talan sjö var talin hin fullkomna heild. Nú svo töldust reikistjörnurnar vera sjö.
Í heimi Biblíunnar táknar talan sjö Guð og heiminn. Talan þrír er tala Guðs, og fjórir er tala heimsins ( höfuðáttirnar fjórar, og frumefnin fjögur), fjórir + þrír eru sjö. Dagar sköpunarinnar eru sjö og skaparinn hvíldist á sjöunda degi.
Höfuðdyggðirnar eru sjö: Trú, von og kærleikur, viska, hófsemi, hugrekki og réttlæti. Þrjár fyrstu kallast guðfræðilegar dyggðir og samsvara þrenningunni. Nú svo kemur Auðmýktin sem er móðir allra dyggða og hrokinn móðir allra lasta.
Í opinberunarbók Jóhannesar, 5. Kafla, er talað um bók með sjö innsiglum.
Sjö voru söfnuðirnir sem Jóhannes skrifaði að tilhlutan engilsins í Opinberunarbókinni.
Bæn Drottins, Faðir vor, mynda sjö bænir, þrjár sem fjalla um Guð og fjórar sem nefna málefni okkar mannanna.
Iðrunarsálmar Saltarans eru sjö: 6, 32, 38, 51, 102, 130 og 143.
Draumur Jósefs fjallaði um sjö feitar og sjö magrar kýr, sem ráðinn var sem að boðaði sjö mögur ár og sjö feit ár. Nú þessi draumur rættist.
Í tjaldbúðum Ísraelsmanna og síðar musterinu í Jerúsalem var sjö arma stjaki,menorah,sem stóð við syðri langvegg. Hann táknaði ljós náðar Guðs sem umlykur allt sköpunarverkið, og hann táknar þjóð Guðs, sem þegið hefur birtu sína af Guði o skal vera ljós í heiminum. Sjö arma stjaka má finna víðá í kirkjum og inn á heimilum, ekki sem síst sem aðventuljós í gluggum heimilanna. Táknið er hið sama náðarljós Guðs og lýð hans sem á að lýsa mönnum til trúar á Guð. Ljósið í miðju, með þrjú ljós til beggja hliða, táknar Guð.
Menorah.
Gjafir andans teljast vera sjö: Andi Guðs, andi speki og skilnings, andi visku og máttar, andi þekkingar, guðrækni og guðsótta.
Orð Jesú er hann háði dauðastríð sitt á krossinum eru sjö:
- Faðir,fyrirgef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gjöra.
- Kona, sjá þar er sonur þinn, Sjá, þar er móðir þín.
- Sannarlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís.
- Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig.
- Mig þyrstir.
- Það er fullkomnað
- Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn.
'A krossinum umfaðmaði hann allan heim og allt líf.
Nú svo sagði Jesús að okkur beri að fyrirgefa, ekki bara sjö sinnum heldur 70 X 7 sinnum.
Trúmál | Breytt s.d. kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.3.2009 | 18:56
Erfitt að fyrirgefa.
Það eru margir sem eru reiðir út í þá sem bera ábyrgðina á bankahruninu og þeirri óráðsíu sem hefur ríkt á landinu undanfarin ár, og er það ekkert skrítið, og sumt fólk á erfitt með að fyrirgefa og jafnvel sumir geta það bara alls ekki.
Þá er gott að lesa eitthvað gott. þennan texta fann í hinni stórgóðu bók "Ég hef augu mín til fjalla" sem er eftir Sigurbörn Þorkelsson. En ég bætti inn nokkrum myndum.
Pétur gekk til Jesú og spurði:
"Herra, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum,
ef hann misgjörir við mig? Svo sem sjö sinnum?"
Jesús svaraði:
"Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu og sjö sinnum.
Því að líkt er um himnaríki og konung,
sem vildi láta þjóna sína gjöra skil.
Hann hóf reikningsskilin, og var færður til hans maður,
er skuldaði tíu þúsund talentur.
Sá gat ekkert borgað, og bauð konungur þá,
að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum
og öllu, sem hann átti, til lúkningar skuldinni.
Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði:
"Haf biðlund við mig, og ég mun borga þér allt."
Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann,
lét hann lausan og gaf honum upp skuldina.
Þegar þjónn þessi kom út, hitti hann einn samþjón sinn,
sem skuldaði honum hundrað denara.
Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði:
"Borga það, sem þú skuldar!"
Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann:
"Haf biðlund við mig, og ég mun borga þér."
En hann vildi ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi,
uns hann hafði borgað skuldina.
Þegar samþjónar hans sáu, hvað orðið var,
urðu þeir mjög hryggir
og sögðu herra sínum allt, sem gjörst hafði.
Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann:
"Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp, af því að þú baðst mig.
Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum,
eins og ég miskunnaði þér?"
Og konungurinn varð reiður og afhenti hann böðlunum,
uns hann hafði goldið allt, sem hann skuldaði honum.
Þannig mun og faðir minn himneskur gjöra við yður,
nema hver og einn yðar fyrirgefi af hjarta bróður sínum.
(Matteus 18:21-35)
Jesús sagði á krossinum:
Faðir fyrigef þeim,
því að þeir vita ekki hvað þeir gjöra.
(Lúkas 23:34)
Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni,
heldur það eitt, sem er til uppbyggingar,
þar sem þörf gjörist,
til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra.
Hryggið ekki Guðs heilaga anda,
sem þér eruð innsiglaðir með til endurlausnardagsins.
Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði,
hávaða og lastmæli
vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt.
Verið góðviljaðir hver við annan,
miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum,
eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.
(Efesusbréfið 4:29-32)
Verum góð við hvort annað og þá verður lífið miklu skemmtilegra.
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)