Biðja dýrin ?

Maðurinn biður bæna til síns herra.En ætli blessuð dýrin biðji bæna til síns herra ?

Ég sá þessa grein í gömlu blaði, en bætti inn myndum.

Almanak Þjóðvinafélagsins 1911 - Tryggvi Gunnarsson

 hestarb

Mynd eftir Raymond Rafn Cartwright

BÆN HESTANNA Gefðu mér fóður svo ég sé ekki svangur, og vatn þegar ég er þyrstur. Mundu eftir því, að nú eru víða á þjóðvegum komnar brýr yfir ár og læki, svo að nú get ég ekki fengið að drekka á ferðalagi eins oft og áður. Ljáðu mér hús og sæmilega hirðingu, svo að ég þurfi ekki að standa úti í vetrarfrostum og jarðleysum. Berðu mig ekki. Þegar ég er að bera þig eða þína muni þá skil ég ekki, hvers vegna þú ert að berja mig. Mér finnst ég vilja þóknast þér í öllu, sem ég get. Sjáðu um það, að ekki sé kippt illmannlega í taumana eða látin upp í mig frosin beislismélin á vetrardag, þegar ég er beislaður.- Láttu mig ekki ganga berfættan á grýttum vegi eða svellalögum á vetrardegi. Legg þú ekki þyngri byrðar á mig en ég get borið. Hnýttu hvorki hestum né nautum í tagl mitt, slíkt hefur oft kvalið mig og þreytt. Þrýstu mér ekki til að hlaupa hraðara en ég get, og umfram allt, lánaðu mig ekki ungum reiðgöpum eða fyllirútum. Lofaðu mér að hvíla mig þegar ég er mjög þreyttur, eða er bólginn eða með sár undan reiðverum. Allt, sem ég get unnið skal ég vinna fyrir þig með glöðu geði, einkum ef þú sýnir dálitla viðkvæmni og blíðu. Og þó þú berjir mig og sýnir mér illhryssingshátt, þá skal ég samt vinna fyrir þig með góðu, ef þú ekki á endanum selur mig, þegar ég er orðinn gamall og heilsulítill til ókunnra manna í ókunna átthaga. Styttu miklu heldur líf mitt þannig, að ég sem minnst viti af því, þegar þér virðist að ég geti ekki unnið fyrir uppeldi mínu. Þú veist, að ég get ekki talað svo þú skiljir mig, en láttu mig ekki gjalda þess.

 FWDanielleDogLicense

BÆN HUNDANNA Lofaðu mér að fylgja þér, hvert sem þú fer, þó þú stundum skammir mig og berjir, þá hefi ég nú fengið svo mikla tryggð til þín, að ég hefi enga ró þegar ég sé þig ekki, þú ert sá eini í heiminum, sem mér þykir vænt um. Lokaðu mig því ekki inni þegar þú fer eitthvað, og skildu mig ekki eftir á ferðalagi. Gerðu mér aðvart þegar þú fer af stað. Það er óbærilegt, þegar ég leita að þér á ókunnum stað og finn ekki. Reiddu mig yfir ár og eggjagrjót, svo að ég geti fylgt þér á langri leið. Ég vil vinna til að vera svangur og magur, ef ég fæ aðeins að vera hjá þér og njóta blíðu og nákvæmni þinnar. Skammir og högg særa mig einkum þegar mér finnst ég vera saklaus, eða skil ekki fyrir hvað ég á að líða þetta. Ég skal reyna að vinna ekki til þess. Þó ég geti ekki talað, þá getur þú séð í augum mínum hugsanir mínar.

Verum góð við dýrin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Mjög fallegt og takk fyrir þetta  

Margrét St Hafsteinsdóttir, 6.6.2007 kl. 18:45

2 Smámynd: Jens Sigurjónsson

Erlingur það er ekki dugnaður að bulla smá í tölvunni

Jens Sigurjónsson, 6.6.2007 kl. 20:51

3 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Þetta er fallegt og sjálfsagt margir sem hefðu gott af því að lesa þetta, þá fleiri en gera hér.

Rúna Guðfinnsdóttir, 6.6.2007 kl. 23:35

4 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Þetta er fallegt. En þegar ég sat úti á sólsvölum í kvöld sá ég  kraftalegarn reiðan mann í næstur blokk halda stórum hundi uppi á hálsólinni og drösla honum þannig harkalega inn í sólskálann sinn
er næstum viss um að hann hefur sparkað í hann þegar inn var komið því það var ljóst að hundinum lá við hengingu af því að vera dreginn svona
Ég vildi óska að hægt væri að hringja í lögregluna og kæra þegar maður sér svona meðferð á dýrum. Ef þetta hefði verið barn sem hefði verið dregið svona og haldið á lofti frá jörðinni langar leiðir á einhverri ól hefðu allir rokið upp til handa og fóta.

En sumt fólk er bara ekki hæft til þess að eiga dýr. Arg

Svava frá Strandbergi , 7.6.2007 kl. 00:38

5 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Það er hægt að hringja í Dýravernd Guðný, ég held að þeir geri eitthvað..einhver hlýtur að standa vörðu um vesalings dýrin okkar. Það á að vera hægt að kæra svona. Við megum ekki líta undan ef við verðum vör við eitthvað svona.

Rúna Guðfinnsdóttir, 7.6.2007 kl. 09:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband